Frankenstein - vörður heimilanna

Maður eyðir heilu og hálfu dögunum í að reyna að skilja annað hvort hausinn eða halann á kreppunni. Aldrei hvoru tveggja. Til þess þyrfti maður að ráða yfir alvarlega klofnum persónuleika.

En ef maður reynir að analýsera síðustu vikur út frá því sem ráðamenn segja þá hófst það á yfirlýsingum um að standa yrði vörð um heimilin í landinu og atvinnulífið og strax yrði ráðist í aðgerðaráætlun til að hanna þennan Vörð.

Straxið spannaði sex vikur. Sex vikur þar sem ráðamenn voru svo á kafi að hanna Vörð að þeir yrtu ekki á þjóðina. Og hvernig lítur svo þessi vörður út?

Eins og ég - af mínu litla viti - skil hönnunina, þá er Verði klambrað saman úr öllu því versta hráefni sem ríkisstjórnin gat skrapað saman og útlit fyrir að niðurstaðan muni knésetja atvinnulífið og heimilin á skemmri tíma en allar eldstöðvar landsins hefðu megnað hefðu þær tekið sig til og spúð yfir okkur eldi og brennisteini mánuðum saman.

Það eru tekin lán til að setja krónuna á flot. Það hafa fengist vilyrði fyrir því að þjóðarmaskínan verði komin í gagnið fyrir jól. Lítið sagt frá því hvort hún muni virka ergir jól. Er það bara ég, eða er þetta framhald á þeim sýndarveruleika sem við höfum búið við í hinum meinta góðæri?

Íbúðalánasjóður ætlar að leysa til sín slatta af húsnæði því sem kallast heimili í landinu og leigja það svo þeim sem hafa unnið fyrir þessari steinsteypu, myrkranna á árum saman. Strit heilu fjölskyldnanna hverfur eins og dögg fyrir sólu, eignarhlutur þeirra verður ekki bara núll - heldur mun mínusinn halda áfram. Skuldinn hverfur ekki - og þegar hún er orðin fjölskyldunni um megn, verður gengið að öðrum eignum. Við vitum að ríkið og stofnanir þess gefa aldrei neitt eftir.

Hinn magnaði Vörður er studdur af hækkandi sýrivöxtum til að sjá til þess að fjölskyldur landsins tapi sem mestu sem fyrst.

Félagsmálaráðherra er "undir þrýstingi" eins og hún orðar það til að losa um þau höft sem meina fólki að taka út séreignar lífeyrissparnað og telur að það geti bjargað mörgum heimilum. En er verið að losa um þau höft?

Nei.

Hinn sérhannaði Vörður er meingölluð smíð, svona efnahagslegur Frankenstein, hannaður af sama fólki og skapaði Ísland sýndarveruleikans sem við höfum búið við síðastliðinn áratug.

Þessi flokkur ráðaribbalda hefur aðeins eitt markmið: Að viðhalda sjálfu sér. Leiðin til þess er að horfast aldrei í augu við að þeir eru ekkert annað en ófreskju-skaparar. Ekki einu sinni þegar ófreskjurnar eru byrjaðar að háma þá sjálfa í sig. Fari þeir vel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Súsanna Svavarsdóttir

Höfundur

Súsanna Svavarsdóttir
Súsanna Svavarsdóttir

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...andlit_unni
  • Snæfellsjökull

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband